Útskipun á Kötlusalla ráðgerð við Alviðruhamra á Mýrdalssandi

Frumrannsóknir benda til að þess mögulega megi reisa staurabryggju til útskipunar, ásamt brimvarnargarði og vinnusvæði, við Alviðruhamra um 30 km austan Víkur í Mýrdal. Þannig yrði fyrirhugaður útflutningur á Kötlusalla (e. Katla pozzolan) mun einfaldari, enda væru flutningar frá efnistökusvæði austan Hafurseyjar um Þjóðveg 1 úr sögunni ef sallanum yrði skipað út við Alviðruhamra.
Efnið yrði flutt 13 km leið að geymslusvæði við ströndina með færibandi yfir sandinn eða með tengivagnalest eftir vinnuvegi. Í báðum tilvikum yrði farið undir þjóðveg 1 í undirgöngum og því færu engir efnisflutningar um þjóðvegi neins staðar í ferlinu.
Löng og mjó staurabryggja með færibandi og akrein yrði rekin niður um 2 kílómetra út í sjó. Við enda hennar er ætlunin að gera 200 metra langa viðlegu samkvæmt fyrirliggjandi hugmyndum. Þannig fengist aðstaða til lestunar allt að 60 þúsund tonna flutningaskipa. Þar fyrir utan kæmi eins kílómetra brimvarnargarður sem skjól fyrir haföldunni.
Í júní 2023 lauk umhverfismati á efnistöku austan Hafurseyjar og ráðgert var að hún næmi í heildina 146 milljónum rúmmetra. Ætlunin er að nýta Kötlusallann á meginlandi Evrópu til þess að minnka losun gróðurhúsalofttegunda við sementsframleiðslu.
Hafnadeild Vegagerðarinnar hafði, ásamt sveitarstjórn, frumkvæði að tillögu um útskipunaraðstöðu við Alviðruhamra. Áætlað er að Skipulagsstofnun veiti álit sitt á fyrirliggjandi matsáætlun í vor og að sumarið nýtist til umhverfisrannsókna og vettvangsvinnu á framkvæmdasvæðinu. Líklegt er talið að framkvæmdir taki um þrjú ár eftir að öll nauðsynleg leyfi hafa fengist og tæknilegri hönnun er lokið. EP Power Minerals Iceland ehf. er framkvæmdaraðili verkefnsins en umsjón með matsvinnu er í höndum Eflu hf. verkfræðistofu.
Alviðruhamrar
Alviðruhamrar eru um 12 km vestan við ósa Kúðafljóts og suðvestan við Álftaver. Þetta er einn af fáum stöðum við suðurströndina þar sem fast berg nær nánast alla leið til sjávar; efnistökusvæðið austan Hafurseyjar er í grennd; útskipunarbryggjan utan meginfarvega þekktra Kötluhlaupa; aðkoma er auðveld og vegagerð þægileg. Lítið rask yrði á landi og vistgerðum þar sem svæðið er að mestu auður sandur og sandorpið hraun. Framburður frá helstu jökulám beinist aðallega annað og einsleitur sjávarbotn auðveldar gerð viðlegukants.